Verkefnið The full story: Dynamic cultures of the Westfjords sprettur upp úr samvinnu þjóðfræðings frá Ísafirði og hönnunarnema frá Reykjavík yfir sumarið 2022. Þær lögðu upp með að rannsaka lífssýn íbúa á Vestfjörðum og hvernig svæðið hefur þar áhrif.
Notast var við eigindlega rannsókn sem byggði á viðtölum, vettvangsnótum og myndefni. Þá voru teknir fyrir ólíkir íbúakjarnar með töluverða landfræðilega fjarlægð sín á milli, en sögurnar koma til að mynda frá Patreksfirði, Ströndum, Ísafirði og Flateyri. Helstu niðurstöður rannsóknarinnar voru þær að þó viðmælendur lifðu fjölbreyttu lífi en áttu það sameiginlegt að upplifa sig lifa lífinu á sínum eigin forsendum. Samfélag, fjölskylda, og frelsið til að skapa voru þættir sem skiptu viðmælendur miklu máli og eitthvað sem þau lögðu áherslu á í sínu daglega lífi.
Inngangur
Tíu manneskjur, tíu sögur, tíu heimar á hjara veraldar, Vestfjörðum Íslands. Hvernig lítur lífið út í gegnum glugga Vestfjarða?
Í viðtölum kom í ljós að það væri sérstök tilfinning sem fylgdi því að búa á Vestfjörðum sem erfitt væri að setja fingurinn á. Rannsóknir sumarsins eru heiðarleg tilraun til þess að setja fingurinn á þessa tilfinningu. Saman draga frásagnirnar upp skýra mynd af lífinu í gegnum augu íbúa á Vestfjörðum. Kjörbúðinni er lýst sem félagsmiðstöð og heita pottinum sem Alþingi. Tómatar vaxa í takt við lækinn í garðinum og kvöldmaturinn er eldaður á varðeldi þegar eldavélin bregst. Leikskólinn stendur við hliðina á vinnustaðnum, sem stendur við hliðina á heimilinu, og bílinn er skilinn eftir með lykilinn í skránni ef einhver skyldi þurfa á honum að halda. Hugmyndir fæðast í faðmi fjallanna og lifna við í krafti samfélagsins. Fjarri áreiti borgarlífsins, hafa margir viðmælenda komist upp á lagið með að stjórna hraða hins daglega lífs og skapa sér sinn eigin takt í lífinu. Í smáum samfélögum Vestfjarða virðist vera sérstaklega mikilvægt að nýta það sem hver og einn hefur fram að færa. Hver einstaklingur hefur einstaka vitneskju til þess að vökva samfélagið svo að vaxi og dafni.
Hérna eru því tíu sögur sem voru fundnar á þessum slóðum.
Tíu einstakar sýnir á lífið sem að saman mynda glugga til
að gægjast inn í heim Vestfjarða.
Bogfimi hugmyndanna
“Ég sá mig aldrei sem einhvern sem býr til pönnukökur. Það getur verið að ég geri eitthvað annað á morgun. En tempóið er allt annað hér. Ég fæddist í Króatíu og lærði upplýsingafræði í höfuðborginni, Zagreb, þar sem ég og kona mín bjuggum saman í yfir áratug. Þar elst þú upp við að reyna fylgja einhverju munstri líkt og það sé uppskrift að hamingju. Þú ferð í skóla til að finna gott starf sem er oftar en ekki á skrifstofu. Síðan ertu kominn í fína, örugga 9-5 vinnu, og utan frá tékkar þú í öll boxin. En það vantar eitthvað. Þess vegna ákváðum við að skilja við rútínuna sem við höfðum komið okkur upp, og leita annarra hluta í lífinu. Við fluttum því til Íslands, á Vestfirði. Eftir á að hyggja var það alveg rétt ákvörðun. Hér er ég hamingjusamur, öruggur og rólegur. Samfélagið er heilbrigt, fólk er hjálpsamt og nýjum hugmyndum er tekið fagnandi.
Einn veturinn stofnaði ég bogfimihóp. Ég fann búnað sem lá bara í íþróttahúsinu og enginn var að nota. Það varð til þess að við stofnuðum hópinn og æfðum á kvöldin. Sjálfur hafði ég aldrei lært bogfimi og vissi í raun ekki hvað ég var að gera. En þetta virkaði allt saman og við skemmtum okkur konunglega saman. Þar sem skammdegið getur verið krefjandi hér á veturna þá er mikilvægt að taka af skarið og eiga frumkvæði að því að koma saman. Mig langar til að sjá samfélagið hérna vaxa og dafna. Ef að það eina sem ég geri er að eiga svolítinn hlut í uppbyggingu samfélagsins hérna, er það mér nóg. Það veitir mér ánægju að geta gefið til samfélagsins.”
Þetta eru orð Alexandar Kuzmanic, sem flutti til Hólmavíkur frá Króatíu, þar sem hann ólst upp. Alexandar og kona hans eru fyrirtækjaeigendur í bænum. Þau elda crépes-pönnukökur handa íbúum Hólmavíkur, sem er vinsæll réttur heima í Króatíu, en nú er stefnan sett á að stofna fyrsta brugghús Hólmavíkur. Alexandar hefur búið á Íslandi í nokkur ár og nýtur kyrrðarinnar sem Vestfirðir geyma.
“Við fluttum hingað fyrir ári og höfum verið að taka íbúðina í gegn. Við erum að leyfa því að taka tíma og við tökum allskonar útúrdúra í uppbyggingunni. Til dæmis keyptum við æðislega eldavél sem við biðum eftir í níu mánuði. Á meðan við biðum vorum við bara með einn primus í eldhúsinu, grill og svo elduðum við flest á bálpönnu, það er að segja, við elduðum kvöldmatinn okkar á varðeldi. Við fórum til Svíþjóðar um páskana á námskeið að læra að elda á eldi. Vorum bara út í einhverjum skógi. En þessa níu mánuði sem við vorum ekki með eldavél elduðum við flest úti í garði. Það tekur allt miklu lengri tíma, þú þarft að kveikja upp og ert frekar mikið í pottréttum. Við vorum orðin svolítið mikið bara eins og Bjartur í Sumarhúsum. Við vissum að við gætum þetta. En fólk í kringum okkur horfði til okkar og skildi þetta ekki alveg. Sögðu við okkur bara ,,Æææ, guð minn góður, hvernig getið þið lifað svona?” En einmitt þau viðbrögð æstu okkur upp í þessu. Við viljum gera hlutina á okkar eigin forsendum. Það þarf alltaf að vera einhver áskorun.”
Á okkar eigin forsendum
Alda Hrannardóttir býr á Patreksfirði í bjartri íbúð sem hún er að gera upp ásamt eiginmanni sínum. Hún kýs að lifa sínu lífi á sínum eigin forsendum og velur að hafa einhverja áskorun í því sem hún tekur sér fyrir hendur. Hún er virkur meðlimur í samfélaginu, sinnir sjálfboðastörfum og hefur mjög gaman af menningarviðburðum. Hún ræðir um mikilvægi þess að taka þátt í því sem er í gangi í samfélaginu og reynir að mæta í flest. Viðburðirnir eru kannski ekki alltaf eitthvað sem hún myndi mæta í ef meira val er í boði en yfirleitt koma þeir þó skemmtilega á óvart.
“Ef þig langar að gera eitthvað þá hóarðu bara saman fólki. Það er hugarfarið sem þú þarft að hafa þegar þú býrð á Vestfjörðum. Við höfum haft allskonar frábæra viðburði. Einn minnisstæðasti viðburðurinn var þegar aðalgatan hérna var rifin upp. Allar lagnir voru ónýtar og það var heill vetur þar sem þú þurftir að nota fjallgönguskó til að labba niður Aðalstrætið. Þetta voru hnullungar og það dugði ekkert minna. Allt var upp tætt og ekki lagað fyrr en ári síðar. Það var tíminn sem þetta tók.
Þegar það var loksins malbikað, bjó ég til viðburð á Facebook sem hét “Á spariskóm í bíó.” Það komu fullt af konum og við gengum saman í háhæluðum skóm þennan smá spotta frá kirkjunni niður í bíó. Körlunum í Lions klúbbnum fannst þetta svo skemmtilegt að þeir bættu í. Þegar við komum niður brekkuna að bíóinu sáum við að þeir voru búnir að kasta út rauðum dregli og voru mættir með freyðivín. Við sem vorum bara að fara að horfa á bíómynd. Það var ekkert að fara að gerast annað. Þetta var strax orðið mjög skemmtilegt. Þetta þarf ekki alltaf að vera eitthvað risa. Þetta þarf bara að vera smá.”
Á spariskóm
í bíó
Guðrún Anna segir þessa sögu. Hún er íbúi á Patreksfirði en ólst upp á Ísafirði. Hún flutti þaðan ung að aldri til að sækja sér frekari menntunar eins og algengt er fyrir svæðið. Eftir að hafa búið á mörgum ólíkum stöðum hér á landi og erlendis flutti hún til Patreksfjarðar árið 2013 ásamt fjölskyldu sinni. Fyrir Guðrúnu er samfélagsleg þátttaka mjög mikilvæg. Framlag íbúa skiptir miklu máli fyrir samfélagið og sú hæfni sem þú býrð yfir kemst fljótt upp á yfirborðið og er nýtt í þágu samfélagsins. Í litlum samfélögum geta einstaklingar haft áhrif og litlir viðburðir eins og ganga niður aðalgötuna á spariskónum geta skilið eftir sig stór fótspor.
Það er meiri tími og rými til að skapa eitthvað sjálf hérna. Við vinnum í törnum og getum leyft okkur að gera það sem við höfum áhuga á. Við vitum ekkert hvað við erum að gera, en við erum bara að hafa gaman, skapa og kynnast nýju fólki.
Þegar ég var lítil var enginn tónlistarskóli hér en ég hafði mjög mikinn áhuga á tónlist. Ég endaði á að banka upp á hjá orgelleikara í bænum og biðja hann um að kenna mér á píanó. Þarna opnast einhverjar brjálæðislega nýjar dyr fyrir mér. Árið 2006 þegar ég var 16 ára flutti ég til Reykjavíkur til þess að fara í menntaskóla. Það gerði mér kleift að fara í kór sem opnaði leið inn í tónlistarheiminn. Núna þegar ég horfi til baka þá er uppspretta flestra laga og ljósmyndaverka, það á eiginlega allt grunninn hér. Mér hefur alltaf tekist að fara aftur í rætur mínar hér á Patreksfirði til að fá innblástur. Mest af því sem ég hef gert hefur sprottið héðan. Hjartað mitt slær pínu hér og ég finn tengingu við náttúruna og einhverja nostalgíu.
Uppspretta tónlistarinnar
Þetta eru orð listakonunnar Guðnýjar Gígju Skjaldardóttir frá Patreksfirði. Gígja flutti 16 ára til Reykjavíkur og flutti ekki aftur á Patreksfjörð fyrr en árið 2020. Ákvörðunin að flytja aftur á Patreksfjörð var byggð á mörgum þáttum en möguleikinn á því að geta hægt á lífinu, þurfa ekki að vinna eins mikið og hafa meiri tíma og rými til að skapa vó stórt í ákvarðanatökunni. Gígja er er tónlistarmaður, ljósmyndari og rekur listhneigða samkomuhúsið og veitingastaðinn Flak ásamt maka sínum.
Öll ferðalögin hafa breytt því hvernig ég hugsa. Í menntaskóla var ég á viðskiptabraut og ætlaði að vinna í banka. Svo ákvað ég að fara í skiptinám til Brasilíu. Það má segja að það hafi verið alger vendipunktur í mínu lífi og hafði áhrif á allt sem til var. Sýnin fór frá Bolungarvík til Brasilíu og ég sá að heimurinn er meira en bara Bolungarvík og Ísafjörður. Ég nældi mér í ferðabakteríu. Eftir fjögurra ára ferðalag þá var ég farinn að velta fyrir mér hvað ég ætti að gera næst og enda í mannfræði. Ég hefði ekki endað í mannfræði nema út af öllu þessum ferðalögum. Þau lögðu grunn af því hver ég er í dag og hvernig ég haga lífi mínu. En á öllum þessum ferðalögum var ég alltaf að leita að því sem mér fannst framandi. Ég var að leita að áhugaverðu fólki, fjöllum og fjörðum. Ég var einhvers staðar lengst í Argentínu að leita að einhverju áhugaverðu þegar það rann upp fyrir mér. Þetta er allt bara heima líka. Ég þarf ekkert að fara til Argentínu til þess að finna skemmtileg samfélög og fallega náttúru. Það varð til þess að þegar ég lauk mastersnámi fannst mér bara liggja beinast við að koma heim. Prófa að búa hér og hér er ég enn, níu árum seinna.
Út í heim
og
aftur heim
Haukur Sigurðsson á Ísafirði á þessa sögu. Hann er mannfræðingur, býr með eiginkonu sinni Vaidu og sonum þeirra tveim. Þau búa í ættaróðali fjölskyldunnar frá árinu 1890 og hafa eitt seinustu árum í að gera það upp. Haukur og konan hans eru ævintýragjarnt fólk og hafa þá meðal annars búið í mongólsku tjaldi, jurtu, í ár. Það er mikilvægt fyrir hann að eiga gott heimili, glaða krakka og búa í skapandi og áhugaverðu samfélagi þar sem þau hjónin fá að gera það sem þau vilja.
“Þegar ég var nýflutt til Vestfjarða var mér boðið til Hornstranda í viku. Við fórum í litlum hópi með refarsérfræðingi til þess að fylgjast með refum. Okkur var siglt þangað á báti og skutlað í land með útilegubúnaðinn í farteskinu. Á hverjum degi gengum við upp að refagreni og fylgdumst með hegðun refanna. Dag einn þegar við sátum við greni sem var rétt við lítið stöðuvatn tók ég eftir tveimur álftum. Samtímis og í algerum takt flugu þær upp og fóru hring umhverfis vatnið. Áður en þær lentu aftur sá ég hvernig annað álftapar kom fljúgandi í áttina til þeirra. Fyrra parið við vatnið byrjaði að kvaka hástöfum, og flaug svo á eftir seinna parinu til þess að hrekja það í burt. Eftir það lenti álftaparið aftur á vatninu, fullar af reisn og þokka. Það er ekkert sem jafnast á við það að verja sitt svæði. Allan tímann gat ég bara setið þarna alveg hljóð í mögnuðu landslagi og fylgst með náttúrunni gera sitt. Þetta var mjög sterk og ósvikin upplifun sem setti hlutina í samhengi.
Flateyri og Önundarfjörður er mjög sérstakt svæði fyrir mér. Ég fer í göngutúr þrisvar til fjórum sinnum í viku og geng út fjörðinn. Það eru einhverjir töfrar þarna sem ég næ ekki að setja fingurinn á. Eitthvað sem lætur mér líða eins og ég sé komin heim.”
Náttúran að gera sitt
Þessi orð tilheyra Jean Larsson listakonu og íbúa á Flateyri. Jean er upprunalega frá Bandaríkjunum en seinustu ár hefur hún verið búsett ýmist hér á Íslandi, í Frakklandi eða í Bandaríkjunum. Seinasta sumar vann Jean að verkefni sem kallast “Birdwalk” en í verkefninu hefur hún tekið að sér að mála fugla á hús á Flateyri og má finna þá víða um bæinn. Má segja að með list sinni hefur Jean náð að auðga lífið
á Flateyri. Hún hefur upplifað margt og ferðast víða í lífi sínu en lýsir því þó að tenging hennar við Vestfirði og Flateyri sé alveg einstök. Tengingin sem hún hefur náð við samfélagið og svæðið gefur henni mikla ró og henni líður hvergi eins vel.
“Við erum svo fljót að gleyma. Við erum búin að gleyma 4-5 kynslóðir aftur og vitum ekkert hvaðan við komum. Verslunin sem ég rek hefur verið í fjölskyldunni í 108 ár sem þykir einstakt á Íslandi. Verslunin er tengd við íbúð langömmu og langafa og allt hefur staðið óbreytt frá því þau létust árið 1950. Ég get gengið inn á þeirra heimili þó ég hafi aldrei hitt þau. Þau voru bæði dáin þegar ég fæðist en samt skynjar maður þau. Fær hugmynd um hvernig þetta fólk var. Ég get sest í stólinn hans langafa, lesið bækurnar sem hann las, lesið það sem hann skrifaði. Ég get farið í gegnum allt þeirra dót sem er bara á sínum stað og búið að vera þarna síðan þau fluttu inn í húsið árið 1915. Þegar ég stend í búðinni stend ég í sömu sporum og þau. Svo kemur eldra fólk inn og segir mér sögur af þeim. Það er mjög dýrmætt að fá þessa sögu, vita hvaðan þú kemur og geta rakið sig svona langt aftur. Tímaramminn verður skrítinn. Ég er hættur að hugsa í árum, ég hugsa í áratugum. Það sem að ég geri núna verður líka skoðað eftir 100 ár. Þegar ég hengi eitthvað upp í bókabúðinni velti ég því fyrir mér hvort það verði ekki örugglega flott árið 2100. Við verðum að vera meðvituð um að okkar samtími er fortíð næstu kynslóðar. Hvernig viljum við skilja við eftir okkur?”
Okkar samtími
er fortíð næstu kynslóðar
Eyþór Jóvinsson er eigandi fornbókaverslunar, kvikmyndagerðarmaður og arkitekt frá Flateyri. Hann fluttist í burtu til að sækja sér frekari menntunar eftir menntaskólann og í gegnum árin hefur hann búið ýmist í Reykjavík eða á Flateyri. Í dag hefur Eyþór alfarið sest að á Flateyri og býr þar með fjölskyldu sinni. Hann er frábær sögumaður og tekur sögur inn í öll þau verkefni sem hann tekur að sér. Eyþór leggur áherslu á það að með því að byggja upp aðra í kringum sig sem og samfélagið sem hann tilheyrir, byggir hann einnig upp sjálfan sig. Í litlu samfélagi eins og á Flateyri er hagstæðast að hjálpa öllum að blómstra.
“En ég myndi áreiðanlega líka vera heimakær í öðru húsi á öðrum slóðum. Ég held að það sé frekar vitneskjan um að krakkarnir mínir og fjölskyldan finni sig hér sem gerir mig ánægða. Einhvern veginn held ég að það geri heimilið, frekar heldur en veggirnir. Mitt stærsta og mikilvægasta verkefni er að vera mamma, ég mun aldrei láta neina vinnu trufla það. En öll áhugamálin okkar eru náttúrutengd. Hvort sem það er að rækta kindur, eða rækta áhugamál á sjó eða landi.
Það á náttúrulega enginn að vinna við það sem hann hefur engan áhuga á, en ég fann það fyrir löngu að nýting á náttúrunni væri eitthvað sem veitti mér ánægju. Ef að ég hlúi að náttúrunni þá gefur hún mér til baka og ég get lifað líka. Þetta samband er auðvitað hárómantískt, en það virkar samt líka. Það er heldur ekki sjálfgefið að náttúran sé góð við mann. Ég held að ég sé tengdari henni af því að ég upplifi mig svo nálægt einhverri aurskriðu eða snjóflóði, sem ég myndi ábyggilega ekki upplifa í stórborg. Ég ber mjög mikla virðingu fyrir náttúrunni.”
Móðurhlutverk náttúrunnar
Þetta eru orð Guðfinnu Láru Hávarðardóttur. Guðfinna er bóndi og með búvísindagráðu á Ströndum. Hún býr á sveitabæ með eiginmanni og börnunum sínum fimm. Samband hennar við náttúruna stuðlaði að því að hún ákvað að gerast bóndi. Hún segir líf bóndans vera vinna allan sólarhringinn sem þó býður upp á mikinn sveigjanleika og fer mjög vel saman við móðurhlutverkið, en að eigin sögn er það hennar mikilvægasta verkefni að vera móðir í dag.
“Ég finn að hérna næ ég að blómstra sem rithöfundur. Ég ákveð sjálf hvernig mig langar til að verja dögunum mínum. Áður var ég alltaf að reyna passa inn í ímyndað púsluspil. Ég hélt að lífið yrði gott ef ég legði mig bara nóg fram við að passa inn. En þegar ég flutti til Bolungarvíkur hafði ég ekki hugmynd um hverjar reglur samfélagsins voru, svo ég þurfti að búa mér til mitt eigið púsluspil. Ég hætti öllum látaleikjum og prófaði að vera bara ég. Ég vissi að ég gat alltaf snúið heim ef mig langaði til þess. Það var þá sem ég byrjaði að skrifa aftur. Svo datt mér í hug að skipuleggja ritlistarnámskeið. Mér til undrunar mætti fólk og næst þegar það kom hafði það tekið vini sína með sér líka. Jafnvel þótt ég væri fyrst og fremst að gera þetta vegna þess að sjálf hafði ég ástríðu fyrir því að skrifa. Í staðinn fyrir að reyna að passa inn í fyrirfram ákveðna stöðu, bauð ég fólki það sem ég vissi að ég hafði fram að færa. Ég leyfði mér að taka áhættuna og uppgötvaði svo smám saman að á meðan ég fylgi sjálfri mér er engin hætta á að tapa eða mistakast. Ég get alltaf fundið mér annan stað, annan tíma og annað sjónarhorn. En til allrar lukku hafa ritlistarnámskeiðin fallið í góðan jarðveg. Fólk heldur áfram að mæta á þau og veitir mér stöðugt innblástur. Mér finnst ég í kjölfarið tengjast samfélaginu á dýpri hátt. Ég er meira en bara samstarfsfélagi, nágranni, eða móðir barnsins míns á leikskólanum. Það sem ég hef að gefa til samfélagsins hefur raunverulegt gildi og sú vitneskja fyllir mig stolti.”
Rithöfundurinn sem skaut rótum
Greta Lietuvninkaite- Suscicke er Litháenskur rithöfundur búsett á Ísafirði. Á meðan hún bjó í Litháen hafði hún fundið sitt draumastarf innan þess sviðs sem hún hafði stundað nám í. Eftir tvö ár af því að vinna sig virkt upp innan fyrirtækisins fannst henni sem hún væri föst inni í hamstrahjóli, og ákvað að leita á vit nýrra ævintýra. Þegar henni bauðst tækifæri til að flytja í lítinn bæ á Íslandi var hún fljót að stökkva á það. Í dag líður henni sem hún sé á réttum stað fyrir þann stað sem hún er á í lífinu núna. Það er henni mjög mikilvægt að hafa tíma og rými til þess að skapa og vaxa sem einstaklingur.
Svo koma þeir
bara fjórir
“Ég man þegar ég flutti hingað og við vorum að koma með húsgögnin. Við fluttum hingað daginn fyrir Þorláksmessu og gátum ekki borið þetta inn. Þannig við hringjum í fólk, mann hérna úti á Drangsnesi og ég spyr hann hvort hann geti hjálpað okkur að bera þetta inn? “Er í lagi að ég komi eftir hálftíma?” Spyr hann. Svo koma þeir fjórir. Þá safnar hann bara saman fólki. Mér fannst þetta svo stórkostlegt, ég var alltaf að tala um þetta. Nú er ég aðeins farin að venjast þessu. Mér er farið að finnast þessi hjálpsemi sjálfsagðari núna.”
Þessi orð tilheyra Kristínu Einarsdóttir. Kristín er búsett í lítilli vík á Ströndum ásamt eiginmanni sínum og nýtur æviáranna. Að eigin sögn hefur Kristín átt frábært líf. Hún hefur gert margt og starfað við ýmislegt sem hefur veitt henni gleði. Hins vegar hefur hún aldrei náð sömu hugarrónni, náð að njóta hvers dags eins mikið og hún nær að gera heima í víkinni sinni. Hún vill helst hvergi annars staðar vera. Fyrir henni skiptir samfélagið máli og hún stendur fast á þeirri skoðun að enginn sé merkilegri en annar. Hvort sem hann keyri um á Porche eða Micru. Á ströndum eru allir jafnir.
Meet the Team
Mjólkurfernusögur is the fruit of a cultural identity research by With Love, Iceland’s multi-disciplinary team, Arndís Dögg Jónsdóttir (folklore and information science) and Svava Þorsteinsdóttir (product design).
During the summer of 2022, the duo traveled around the Westfjords and interviewed local residents about life in the countryside. This collection of stories explore the deeper layers of social life and culture in the Westfjords.
Interviews and writting: Arndís Dögg Jónsdóttir & Svava Þorsteinsdóttir
Illustrations: Svava Þorsteinsdóttir
Creative direction, webpage layout and editing: Jamie Lee
Qualitative research supervisor: Jón Jónsson
This project is made possible by Nýsköpunarsjóður námsmanna, a student innovation fund.
-
Folklorist, Information ScienceArndís is a folklorist, adventure guide and master’s student in Information science. Raised in the Westfjords of Iceland, she moved away in her early 20s to pursue her dream of travelling the world and working as an adventure guide. For 8 years she studied and worked as a guide, travelled and lived by the minimalistic philosophy that if you own more stuff than you can fit in your car, you own too much. In 2020 she felt the need to move back to the Westfjords, slow down and simplify her life. Now she lives in Bolungarvík with her husband and son, where they are renovating a small but cosy little house from 1931 and is trying her absolute best to keep her life as stress-free and relaxed as possible!
-
Product DesignerThe designer of the duo is Svava Þorsteinsdóttir. Svava is studying product design at the Icelandic University of Arts and lives in Reykjavík. In her previous work, Svava has often cultivated a poetic approach to her subjects, focusing on what often misses the eye, hidden in the space between words. When Svava is not on the road, she is likely to be found at the nearest café, reading, drawing up her ideas or writing poetry.